fbpx

Starfsfólk

Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Hún / She / Her

Framkvæmdastjóri & eigandi

saeunn@veganmatur.is

Strangt til tekið er Sæunn framkvæmdastjóri fyrirtækisins en henni leiðist titlatog og satt að segja er „dúer“ mun nákvæmari lýsing á því sem hún gerir. Hún hugsar stórt og gerir stóra hluti, meðeigendum sínum stundum til örlítillar hrellingar. Til dæmis er hún konan sem þurfti að parkera bretti af næringarstykkjum í stofunni heima hjá sér eitt sinn því henni lá svo mikið á að panta nokkur þúsund stykki. Sú staðreynd að húsnæði fyrirtækisins fengist ekki afhent fyrr en nokkru seinna var ekkert að þvælast fyrir henni, eða það að engin verslun hafði svo mikið sem frétt af vörunni. Fjörutíu þúsund stykkjum og tæpu ári síðar var hún búin að leggja undir sig tvö hundruð fermetra lagerpláss og um það bil tíu önnur vörumerki en ekki leið á löngu áður en villt ævintýri fyrirtækisins höfðu dregið allan hópinn yfir til Reykjavíkur þar sem gamla Bónusverslunin í Faxafeni var lögð undir vegan heimsyfirráð.

Það einnig innri brjálæðingur Sæunnar sem ákvað að opna skyndibitastað í gámi með tveggja vikna fyrirvara sumarið 2019 og hennar leiðarljós í lífinu er mantran #breytaheiminum

Það þarf vart að taka það fram að hún er snarvegan – tékkaðu á henni á Instagram.

Magnús Reyr Agnarsson

Hann / He / Him

Rekstrarstjóri & eigandi

magnus@veganmatur.is

Maggi er maðurinn sem tók upp á því að flytja inn Oumph! í frístundum árið 2015. Hann úthýsti allri starfsemi og stjórnaði ævintýrinu nær eingöngu í gegnum tölvupóst fyrstu árin, enda upptekinn við önnur störf. Um skamma hríð lét hann stjórnartaumana í hendur eiginkonu sinnar en áður en hann vissi af hafði fyrirtækið vaxið svo hratt og mikið að krafta hans var óskað á ný.

Hann hefur nefnilega einstaka hæfileika á ýmsum sviðum og er til dæmis maðurinn sem hringt er í þegar hlutir týnast. Í daglegu tali er hann kallaður „The Finder of Things“ á vinnustaðnum og stendur hann svo sannarlega undir nafni.

Rósa María Hansen

Hún / She / Her

Gleðistjóri & eigandi

gledistjori@jomm.is

Þegar dúerinn hafði tekið ofangreinda ákvörðun um opnun skyndibitastaðar í gámi með tveggja vikna fyrirvara leitaði hún samstundis á náðir Rósu. Svona verkefni leysir sig ekki sjálft og ljóst var að einstaka vinnugleði og hæfileika þyrfti í málið. Ráðningarsamtalið var stutt og eitthvað á þessa leið:

Sæunn: Viltu koma og reka skyndibitastað í gámi í allt sumar?

Rósa: Já, það hljómar eins og frábær hugmynd. Hvaða starfsheiti fæ ég?

Sæunn: Hvaða starfsheiti viltu fá?

Rósa: Gleðistjóri. Mig hefur alltaf dreymt um að vera gleðistjóri.

Sæunn: Velkomin til starfa.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Rósa sannarlega staðið undir nafni. Hún er eitt lítið (150 cm nánar tiltekið) skemmtiatriði og sér til þess að hamingjustuðull fyrirtækisins haldist í hæstu hæðum. Með starfstitil sem þennan hefur hún fært sig upp á skaftið og skipt sér af því sem henni sýnist. Meðal annars bauð hún sjálfri sér með á vörusýningu í London eftir stuttan starfsferil og gerði þar nokkra góða samninga um álitleg innkaup. Gleðistjórn er vanmetin auðlind sem við mælum með að öll fyrirtæki taki upp. Satt að segja er hún svo ómissandi að á innan við ári var hún orðin hluti af eigendahóp fyrirtækisins og hefur verið aðal vöruþróunarhugsuður fyrirtækisins frá upphafi Jömm.

View this post on Instagram

@jommnomm 😶

A post shared by RÓSA MARÍA HANSEN (@rosamhansen) on

View this post on Instagram

Semester Benne.

A post shared by Benjamin Lestage 🚽🇸🇪🇨🇦 (@teenagemutantginjaturtle) on

Benjamin Lestage

Hann / He / Him

Svíi (og framleiðslustjóri) og eigandi

benjamin@veganmatur.is

Benne er uppáhalds Svíinn okkar og án hans værum við gagnslausar taugahrúgur. Hann kom í heimsókn með sinni heittelskuðu Rósu á allra fyrstu Jömm vakt fyrirtækisins og endaði á að finna upp Jömm Börgerinn…eða svona sirka. Síðan þá hefur hann varla komist heim, enda á Veganmatar teymið fullt í fangi við að halda í við sísvanga Íslendinga.

Hann átti lengi ekkert formlegt starfsheiti en hefur alltaf er maðurinn sem græjar allt sem þarf að gerast. Hvort sem það er að vaka á nóttunni að smyrja samlokur, endurraða lagernum, skutla og sækja, flippa borgurum, taka þátt í hugmyndafundum eða segja brandara. Hans daglega hlutverk felst þó í að hafa yfirumsjón vöruframleiðslu fyrirtækisins og sér til þess að sósur séu hrærðar og tappað á krukkur, wellington fléttað og hangirúllur rúllaðar.

Linda Ýr Stefánsdóttir

Hún / She / Her

Aðstoðar rekstrarstjóri

linda@veganbudin.is

Linda gekk til liðs við Veganmat skömmu fyrir opnun Jömm í Kringlunni árið 2019. Þar vann hún í sumarstarfi og með skóla. Henni tókst alltaf að setja ný met í fjölda saddra viðskiptavina á sínum vöktum og á líklega ósigrandi met í hraðflippi borgara per vakt. Það var sannkallað ljós í myrkri að fá hana yfir í Vegan búðina á meðan Jömm lokaði tímabundið vegna heimsfaraldurs sem við kærum okkur ekki um að nefna á nafn. Þar hefur hún verið síðan, samstarfsfólki og viðskiptavinum til mikillar lukku. Sumarið 2021 tók hún við verslunarstjórahlutverki búðarinnar eftir að hafa átt lykilþátt í ævintýralegri uppbyggingu hennar og gegnt óformlegu leiðtogahlutverki í sínu starfi um langt skeið.

Í apríl 2022 gerðist hún aðstoðar rekstrarstjóri og gegnir mikilvægu hlutverki samhæfingarstjórnar. Starfsemi okkar er fjölbreytt og síbreytileg frá degi til dags og Linda sér til þess að allt gangi vel fyrir sig.

 

Sædís Karen Stefánsdóttir Walker

Hún/hán/hann

Verslunarstjóri Vegan búðarinnar

saedis@veganbudin.is

Sædís var upphaflega ráðið í tilfallandi hlutastarf við vörukynningar í verslunum. Ekkert varð þó úr því ævintýri og hán náði aldrei að gleðja fólk með vegan matarsmakki því heimsfaraldur kom í veg alla slíka starfsemi um langa hríð. Hán mætti hins vegar galvaskt á helgarvaktir í Vegan búðinni, færði sig svo í fullt starf við búðarstörf og tók loks við starfi verslunarstjóra í apríl 2022.

Hán er ákafur aktívisti fyrir veganisma og réttlæti fyrir öll dýr en líka fyrir líkamsvirðingu, afsmánun geð- og taugaraskana, og hinsegin málefna.

 

Guðrún Ósk Maríasdóttir

Hún / She / Her

Gæðastjóri (í leyfi)

gudrun@veganmatur.is

 

Við vissum ekki að það væri til íslenskur vegan næringar- og matvælafræðingur fyrr en við kynntumst Guðrúnu og samstundis var framhaldið skrifað í skýin. Á meðan restin af hópnum er komin marga hringi á undan sér í hugmyndatryllingi og vöruþróun sér Guðrún til þess að hugsað sé fyrir öllu og að agi sé á allri dreifingu, framleiðslu og matargerð fyrirtækisins.

Hún er stundum kölluð mamman í fyrirtækinu vegna einstakra hæfileika til að halda samstarfsfólkinu á mottunni á sama tíma og hún tekur virkan þátt í hinum daglegu gleði- og hamingjubombum.

Deila: