fbpx

Starfsfólk

Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Framkvæmdastjóri

saeunn@veganmatur.is

Strangt til tekið er Sæunn framkvæmdastjóri fyrirtækisins en henni leiðist titlatog og satt að segja er „dúer“ mun nákvæmari lýsing á því sem hún gerir. Hún hugsar stórt og gerir stóra hluti, meðeigendum sínum stundum til örlítillar hrellingar. Til dæmis er hún konan sem þurfti að parkera bretti af næringarstykkjum í stofunni heima hjá sér eitt sinn því henni lá svo mikið á að panta nokkur þúsund stykki. Sú staðreynd að húsnæði fyrirtækisins fengist ekki afhent fyrr en nokkru seinna var ekkert að þvælast fyrir henni, eða það að engin verslun hafði svo mikið sem frétt af vörunni. Fjörutíu þúsund stykkjum og tæpu ári síðar er hún búin að leggja undir sig tvö hundruð fermetra lagerpláss og um það bil tíu önnur vörumerki.

Það var einnig hennar innri brjálæðingur sem ákvað að opna skyndibitastað í gámi með tveggja vikna fyrirvara síðastliðið sumar og hennar leiðarljós í lífinu er mantran #breytaheiminum

Það þarf vart að taka það fram að hún er snarvegan – tékkaðu á henni á Instagram.

Magnús Reyr Agnarsson

Rekstrarstjóri

magnus@veganmatur.is

Maggi er maðurinn sem tók upp á því að flytja inn Oumph! í frístundum árið 2015. Hann úthýsti allri starfsemi og stjórnaði ævintýrinu nær eingöngu í gegnum tölvupóst fyrstu árin, enda upptekinn við önnur störf. Um skamma hríð lét hann stjórnartaumana í hendur eiginkonu sinnar en áður en hann vissi af hafði fyrirtækið vaxið svo hratt og mikið að krafta hans var óskað á ný.

Hann hefur nefnilega einstaka hæfileika á ýmsum sviðum og er til dæmis maðurinn sem hringt er í þegar hlutir týnast. Í daglegu tali er hann kallaður „The Finder of Things“ á vinnustaðnum og stendur hann svo sannarlega undir nafni.

Rósa María Hansen

Gleðistjóri

gledistjori@jomm.is

Þegar dúerinn hafði tekið ofangreinda ákvörðun um opnun skyndibitastaðar í gámi með tveggja vikna fyrirvara leitaði hún samstundis á náðir Rósu. Svona verkefni leysir sig ekki sjálft og ljóst var að einstaka vinnugleði og hæfileika þyrfti í málið. Ráðningarsamtalið var stutt og eitthvað á þessa leið:

Sæunn: Viltu koma og reka skyndibitastað í gámi í allt sumar?

Rósa: Já, það hljómar eins og frábær hugmynd. Hvaða starfsheiti fæ ég?

Sæunn: Hvaða starfsheiti viltu fá?

Rósa: Gleðistjóri. Mig hefur alltaf dreymt um að vera gleðistjóri.

Sæunn: Velkomin til starfa.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Rósa sannarlega staðið undir nafni. Hún er eitt lítið (150 cm nánar tiltekið) skemmtiatriði og sér til þess að hamingjustuðull fyrirtækisins haldist í hæstu hæðum. Með starfstitil sem þennan hefur hún fært sig upp á skaftið og skipt sér af því sem henni sýnist. Meðal annars bauð hún sjálfri sér með á vörusýningu í London nýlega og gerði þar nokkra góða samninga um álitleg innkaup. Gleðistjórn er vanmetin auðlind sem við mælum með að öll fyrirtæki taki upp. Satt að segja er hún svo ómissandi að á innan við ári var hún orðin hluti af eigendahóp fyrirtækisins.

View this post on Instagram

@jommnomm 😶

A post shared by RÓSA MARÍA HANSEN (@rosamhansen) on

View this post on Instagram

Semester Benne.

A post shared by Benjamin Lestage 🚽🇸🇪🇨🇦 (@teenagemutantginjaturtle) on

Benjamin Lestage

Svíi

benjamin@veganmatur.is

Benne er uppáhalds Svíinn okkar og án hans værum við gagnslausar taugahrúgur. Hann kom í heimsókn með sinni heittelskuðu Rósu á allra fyrstu Jömm vakt fyrirtækisins og endaði á að finna upp Jömm Börgerinn…eða svona sirka. Síðan þá hefur hann varla komist heim, enda á Veganmatar teymið fullt í fangi við að halda í við sísvanga Íslendinga.

Hann á ekkert formlegt starfsheiti en hann er maðurinn sem græjar allt sem þarf að gerast. Hvort sem það er að vaka á nóttunni að smyrja samlokur, endurraða lagernum, skutla og sækja, flippa borgurum, taka þátt í hugmyndafundum eða segja brandara.

Guðrún Ósk Maríasdóttir

Gæðastjóri

gudrun@veganmatur.is

 

Við vissum ekki að það væri til íslenskur vegan næringar- og matvælafræðingur fyrr en við kynntumst Guðrúnu og samstundis var framhaldið skrifað í skýin. Á meðan restin af hópnum er komin marga hringi á undan sér í hugmyndatryllingi og vöruþróun sér Guðrún til þess að hugsað sé fyrir öllu og að agi sé á allri dreifingu, framleiðslu og matargerð fyrirtækisins.

Hún er stundum kölluð mamman í fyrirtækinu vegna einstakra hæfileika til að halda samstarfsfólkinu á mottunni á sama tíma og hún tekur virkan þátt í hinum daglegu gleði- og hamingjubombum.

Eydís Blöndal

Rúntari & Sjálfskipaður markaðsstjóri

eydis@veganmatur.is

Eydís er sterkari en Lína Langsokkur og því var tilvalið að ráða hana í útkeyrslu, sölustörf og kassaburð út um allar trissur. Hún var ekki búin að starfa hjá okkur mikið lengur en viku þegar hún tók sjálfstæða ákvörðun um að taka yfir markaðsmál fyrirtækisins samhliða skyldustörfunum. Þar sem hún er bæði ljóðskáld og heimspekingur og óstöðvandi brandaramaskína var þessari þróun mála ekki mótmælt og leikur hún því lausum hala á samfélagsmiðlum fyrirtækisins og raunar hvar sem henni þykir þörf á eigin kröftum.

 

Hún er líka sjálfkjörin árshátíðar- og skemmtinefnd fyrirtækisins, enda efndi hún til kosninga og tilkynnti úrslit áður en önnur höfðu ráðrúm til að bjóða sig fram. Reyndar er hún líka eina varaþingman starfsliðsins svo hún hefur meiri pólitíska reynslu en öll hin samanlagt.

Hugrún Ósk Bjarnadóttir

Samlokuhvíslari

framleidsla@veganmatur.is

 

Í höfuðstöðvunum okkar í Hafnarfirðinum er framleiðslueldhús þar sem hlutirnir gerast. Hugrún var fyrsti starfskraftur eldhússins í fullu starfi og er eiginlega búin að finna upp alla starfsemi þess í kjölfarið. Hún sér til þess að allt sé skorið, mixað og preppað fyrir Jömm staðinn í Kringlunni, skipuleggur samlokugerð, framleiðir og pakkar sósum eins og vindurinn.

Í frístundum innanhúss kennir hún öðru starfsfólki gagnlega frasa á þýsku og tekur að sér söngstjórn eldhússins þar sem alltaf er tryllt fjör og gleði. Vaktin hverju sinni er misjafnlega lagviss en það stoppar ekki kóræfingarnar og virðist umburðarlyndi og þolinmæði Hugrúnar því sem næst botnlaus.

Jónína Sigríður Grímsdóttir aka Ninna

Sósugerðarmeistari

framleidsla@veganmatur.is

 

Þegar Hugrún var alveg við það að (bókstaflega) drukkna í sósu gekk Ninna til liðs við hana í eldhúsinu og var ekki lengi að tileinka sér töfra Jömm matargerðarinnar. Hún hefur reynst fyrirtækinu alger himnasending, ekki bara vegna þess hversu dugleg hún er heldur njótum við nú sjálfboðaliðakrafta Helgu, konunnar hennar, sem fær regluleg útköll í smökkun vegna vöruþróunar og veitir vel ígrundaða endurgjöf. Án þeirra hjóna væri líklega ekkert Jömm Bernös í kortunum.

Innanhússhobbí Ninnu eru færri en Hugrúnar, en hún heldur samstarfsfólki sínu við efnið í öryggisvörslu. Hún hefur nefnilega einstaka hæfileika til að leita uppi slysagildrur sem venjulegt fólk hefði ekki hæfileika í að slasa sig á og frést hefur að slysadeild Landspítalans hafi óskað eftir áhættumati á aðbúnaði Ninnu við gerð vaktaskipulags fyrir veturinn.

Hulda B. Waage

Bragðlýsingameistari

Tæknilega séð vinnur Hulda ekki hjá okkur. Hún er hins vegar þeim einstöku hæfileikum gædd að eiga auðvelt með að lýsa bragðupplifun með orðum og það kunnum við vel að meta. Við gefum henni að borða og hún þakkar fyrir sig með innblásnum lýsingum sem fá okkur til að roðna. Fylgstu með þegar braðgðupplifunarlýsingar Huldu taka að birtast hér á vefnum.

Við mælum líka með að fylgjast með henni á samfélagsmiðlum.

Guðrún Jónsdóttir

Fulltrúi í kvörtunardeild

dramakast@jomm.is

Tvennum sögum fer af raunverulegri tilvist Guðrúnar okkar en um það verður ekki deilt að hún svarar tölvupóstum samviskusamlega. Við töldum það mikilvægt að hafa sérstakan fulltrúa í kvörtunarpóstsumsýslu síðasta sumar þegar við rákum hinn margumrædda skyndibitagám á bílaplani í Skeifunni. Því miður var hún Guðrún okkar þó algjörlega verkefnalaus en í staðinn buðum við upp á almenna úrlausn vandamála.

Hún hefur m.a. veitt fólki skelegg og umbúðalaus ráð um sambandserfiðleika, veðurheift, umferðarteppur og almenn leiðindi.

Deila: